Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8.mars kl.20 mun Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk minna á verk kvenna fyrr á tíð og flytja tónleikhúsdagsskrá í sal Tónskóla Sigursveins Hraunbergi 2. 

Þar kallast á fornir tónar kventónskálda sem lifðu og störfuðu í klaustrum og nýjar raf-tónmyndir Kristínar Lárusdóttur.

Verkefnið er hluti af mastersverkefni Diljár Sigursveinsdóttur úr NAIP-deild LHÍ (New Audience Innovative Practice).

Kammerhópurinn leikur verk á upprunaleg hljóðfæri eftir tónskáldin og nunnurnar Hildegard von Bingen (1098-1179), Lucrezia Orsina Vizzana (1590-1662), Isabella Leonarda (1620-1704) auk þess sem sungnar verða ítalskar „laudur” eða lofsöngvar frá miðöldum. Höfundar þeirra eru óþekktir en ýmislegt bendir til að þar hafi konur verið að verki.

Á milli hinna fornu tónverka verður leikin ný raftónlist eftir Kristínu Lárusdóttur. Farið verður með textabrot sem unnin hafa verið í samvinnu við leikstjórann Gígju Hólmgeirsdóttur. Lagt er út frá heimildum um ævi Lucrezia Orsina Vizzana sem bjó í Santa Christina klaustrinu í Bologna.

Lucrezia Vizzana, sem gædd var óvenjulegum tónlistarhæfileikum, hlaut haldgóða tónlistarmenntun í klaustrinu, varð góður organist og skrifaði tónverk fyrir samsystur sínar. Árið 1623 voru gefnar út eftir Vizzana 20 mótettur „Componenti musicali de motetti” sem er eina safnið af mótettum frá fyrri hluta 16. aldar sem varðveist hafa og vitað er að eru eftir kventónskáld. Klaustrið Santa Christina var þekkt fyrir öflugt tónlistarstarf og fólk dreif þangað víða að til að hlýða á söng, hljóðfæraslátt og tónsköpun nunnanna. Nunnurnar í Santa Christina-klaustrinu virðast hafa þótt full sjálfstæðar og frelsisþyrstar að mati biskupa og kardinála Bolognaborgar, því um það leyti sem ferill Vizzana stóð sem hæst var send í klaustrið rannsóknarnefnd á vegum yfirvalds kirkjunnar til þess að bæla niður þá „uppreisnaröldu sem reið yfir íbúa klaustursins“. Þessi aðgerð hafði varanleg áhrif á hina skapandi listakonu og heimildir herma að hún hafi frá þeirri stundu hætt tónsköpun og síðustu árin þjáðst af geðrænni vanlíðan.

Kammerhópinn ReykjavíkBarokk skipa Jóhanna Halldórsdóttir altsöngkona, Diljá Sigursveinsdóttir fiðluleikari, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir fiðluleikari, Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari, Steingrímur Þórhallsson organist og semballeikari og Kristín Lárusdóttir tónskáld. Sviðssetning var í höndum Gígju Hólmgeirsdóttur leikstjóra og dramatúrg. Einnig kemur fram ungt fólk úr Sönghópi Fjölbrautaskólans í Breiðholti og úr sönghópnum Litrófinu sem starfræktur er í Fella-og Hólakirkju undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur.

Miðaverð kr. 2.500/ 1.500 (nemendur og ellilífeyrisþegar)