Miðvikudaginn 2. mars kl. 12:15 heldur Guðbjörg R. Jóhannesdóttir erindið Beauty, Landscape and Sensuous knowledge í fyrirlestraröð hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, SNEIÐMYND í Þverholti 11, fyrirlestrasal A.

Guðbjörg er aðjúnkt við listkennsludeild og við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hún er með doktorsgráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og MA gráðu í umhverfisheimspeki frá Lancaster háskóla í Bretlandi.
 
Í erindinu mun Guðbjörg veita innsýn í doktorsverkefni sitt, Íslenskt landslag: Fegurð og fagurfræði í ákvarðanatöku um umhverfismál. Í verkefninu fjallaði hún um hugtökin landslag og fegurð út frá fyrirbærafræðilegu sjónarhorni, um merkingu og gildi fagurferðilegra upplifana af landslagi og hlutverk slíkra gilda í ákvarðanatöku um umhverfismál. Guðbjörg mun einnig segja frá viðfangsefni nýdoktorsverkefnis síns þar sem hún rannsakar vistsiðfræðilegan og póst-húmanískan mannskilning og leitast við að varpa ljósi á mikilvægi skynjaðrar þekkingar í þverfaglegri samræðu um umhverfismál.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir

FACEBOOK VIÐBURÐUR

 

Sneiðmynd - skapandi umbreyting

Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar hönnunar- og arkitektúrdeildar eigin hönnunarverkefni og rannsóknir og ræða tengsl þeirra við kennslu í námskeiðum við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl hönnunar, sköpunar og rannsókna, kennslu og þekkingaröflunar rædd út frá ýmsum sjónarhornum. 

Við hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á meistaranám í hönnun. Áhersla er lögð á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Nemendur eru stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt og endurspeglast þessi áhersla einnig i í kennslu og rannsóknum kennara.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er fagfólk, nemendur og áhugafólk um hönnun hvatt til að mæta. 

Hádegisfyrirlestrarnir eru í sal A í húsnæði hönnunar- og arkitektúrdeildar að Þverholti 11. Allir velkomnir.