Frá og með árinu 2010 hefur skólinn auk þess boðið styrki til starfsnáms á námstíma í gegnum Erasmus Menntaáætlunina. Í upphafi fóru u.þ.b. fimm nemendur á ári hverju í starfsnám en á þessu skólaári er gert ráð fyrir að minnst 20 nemendur hljóti starfsnámsstyrk. Ellefu nemendur af fjórtán sem hlutu starfsnámsstyrk Leonardo fyrr í vetur hafa nú lokið verkefnum sínum erlendis. Tveir útskrifaðir nemendur dvelja sem stendur í Evrópu við starfsnám en það eru þær Gígja Jónsdóttir og Elín Signý W. Ragnarsdóttir sem báðar útskrifuðust af dansbraut vorið 2013. Gígja starfar með Dock 11 í Þýskalandi sem er alþjóðlegur vettvangur fyrir danslistafólk og Elín Signý tekur þátt í uppfærslunni Plum Wine, Highway, Lemon sem frumsýnd verður hjá Mute Company í Kaupmannahöfn í maí.

Siðasti nemandi LHÍ til að hljóta Leonardo styrk verður Ásta Fanney Sigurðardóttir en hún mun stunda starfsnám hjá sýningarstjóranum Gavin Morrison í Frakklandi í maí og júní.

Menntaáætlun ESB, Erasmus+ hóf göngu sína í janúar s.l. en áætlunin sameinar fyrri áætlanir, Erasmus og Leonardo. Þessi breyting gerir það að verkum að nemendur LHÍ geta nú sótt um Erasmus+ starfsnámsstyrk til að nýta á námstíma og/eða að lokinni útskrift. Hægt er að sækja um styrkinn oftar en einu sinni. Nánari upplýsingar um starfsnámsstyrki er að finna á heimasíðu skólans

Við minnum nemendur á að enn er opið fyrir umsóknir um starfsnámsstyrki!

Ljósmynd er af Af Kasper Ravnhøj og Jacob Stage.