This content is only available in icelandic. 

 

I

Þann 7. desember kom loksins fram fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar fyrir næsta fjárlagaár. Framlög til háskólastigsins voru ekki aukin í samræmi við það sem háskólafólk hafði vonast eftir heldur voru enn og aftur langt undir viðmiðum sem kveðið var á um í stefnumótun Vísinda- og tækniráðs við upphaf kjörtímabilsins og ríkisstjórnin samþykkti sjálf.

Þótt Listaháskólinn hafi að þessu sinni fengið hlutfallslega hæstu hækkunina eða um tæp 7.5% er ljóst að slík aukning dugar ekki til að rétta af rekstrarhalla skólans, hvað þá til mjög brýnnar endurnýjunar innviða, tækjabúnaðar, hljóðfærakosts, eða húsbúnaðar, sem ekki hefur verið hægt að sinna í niðurskurði síðustu ára. Þar að auki standa út af allar nauðsynlegar fjárfestingar til framþróunar skólans, hvort heldur litið er til hugmyndafræðilegrar þróunar, rannsókna eða fjárfestinga í miðlægum kerfum, þjónustu eða nýsköpunar á þeim fræðasviðum er skólinn spannar.

Tæpast þarf að minna á húsnæðisvanda skólans í þessu sambandi, en ekki er heldur gert ráð fyrir lausnum þar á þessum fjárlögum og reyndar ekki í áætlun þeirri til 5 ára sem ríkisstjórnin hefur þegar kynnt. Augljóst er að þörf er á meiriháttar viðhorfsbreytingu af hálfu stjórnvalda í garð skólans til að skólinn fái það húsnæði sem hann honum var lofað sem „tannfé“ við stofnun hans fyrir hartnær 20 árum.

Að öllu óbreyttu er því framundan enn eitt erfitt ár þar sem ekki er hægt að fullnýta þá mikilvægu reynslu og þekkingu til uppbyggingar og nýsköpunar sem þó býr í starfsliði og nemendum Listaháskólans, þrátt fyrir niðurskurð undanfarinna ára.

Það er ljóst að í háskólakerfinu – líkt og í heilbrigðiskerfinu – er farið að sjá alvarlega á öllum innviðum. Afleiðing fjársveltisins sem nú spannar nánast heilan áratug og sá niðurskurður sem því fylgir getur ekki annað en bitnað á eðlilegri uppbyggingu háskólastarfs á öllu háskólastiginu. Afturför í starfi háskóla vegna fjárskorts er vitanlega grafalvarlegt mál, sem jafnframt hlýtur að vega að framtíðarmöguleikum þeirra kynslóða sem óhjákvæmilega þurfa að takast á við ögranir nýrrar aldar og bera ábyrgð á samkeppnishæfni Íslands til lengri tíma.

Listaháskóli Íslands er ekki einn í þeirri stöðu sem lýst er hér að ofan heldur er allt háskólastigið undir. Rektorar allra háskólanna sáu því ástæðu til að senda frá sér ályktun fyrr í vikunni sem t.d. er að finna á eftirfarandi vefslóð: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/14/fordaemalaus_stada_haskolanna/

Þar segir m.a.: „ Ljóst er að þær fjár­hæðir sem há­skól­um lands­ins eru ætlaðar sam­kvæmt fyr­ir­liggj­andi fjár­laga­frum­varpi standa ekki und­ir því mik­il­væga starfi sem skól­arn­ir sinna. Há­skól­ar í ná­granna­ríkj­um okk­ar fá tvö­falt hærri fram­lög á hvern nem­anda og end­ur­spegl­ar það raun­veru­leg­an kostnað há­skóla­starfs. Til þess að ná meðaltali fram­laga í OECD-ríkj­un­um þarf 8 millj­arða kr. til viðbót­ar við þá fjár­hæð sem gert er ráð fyr­ir í fjár­laga­frum­varp­inu og 16 millj­arða kr. þarf til að ná meðaltali Norður­land­anna.“

II

Gagnrýni fjármálaráðherra í kjölfar fjölmiðlaumræðu um óánægju forsvarsmanna ýmissa stofnanna vegna fjárlaganna er að mínu mati byggð á misskilngi hans, annars vegar á hlutverki fjölmiðla og hinsvegar á hlutverki forstöðumanna stofnanna.

Í tilviki Listaháskólans er það fyrst og fremst árvekni fjölmiðla sem verður til þess að okkar málefni rata í umfjöllun þeirra. Það er enda ekkert óeðlilegt við það að fjölmiðlar fjalli um málefni stofnanna sem ekki ná eyrum stjórnvalda, líkt og Bjarni heldur fram. Þvert á móti er það einmitt hlutverk fjölmiðla að upplýsa almenning um ástand innviða samfélagsins. Það er almenningur sem rekur bæði menntakerfið og heilbrigðiskerfið með sínu skattfé - og því þarf almenningur að vita hvaða áhrif áralangur niðurskurður hefur á lífshætti og framtíðarafkomu þeirra sjálfra og barna þeirra.

Hvað viðhorf ráðherrans til forstöðumanna stofnanna varðar, er það umhugsunarverð afstaða að höfða til samvisku þeirra gagnvart stjórnmálamönnum umfram aðra. Forsvarsmenn stofnanna bera fyrst og síðast ábyrgð gagnvart skattgreiðendum; þeim almenningi sem stofnanirnar þjóna – auk þess vitaskuld að sýna ráðdeild í starfsemi sinni. Ef athafnir og ákvarðanir stjórnmálamanna ganga í berhögg við það sem forsvarsmenn stofnanna telja nauðsynlegt til að svara grunnþörfum samfélagsins og varðar t.d. heilbrigði almennings og gæði háskólamenntunar, hljóta stofnanirnar að þurfa að láta í sér heyra. Á þessum lögmálum byggir lýðræðisamfélagið sína umræðuhefð og ákvarðanatöku – á samtali við almenning.

III

Á stjórnarfundi Listaháskólans, þann 22. nóvember, tóku tveir nýir fulltrúar menntamálaráðuneytisins við stjórnarsetu. Umboð fyrri fulltrúa ráðuneytisins, þeirra Kolbrúnar Halldórsdóttur og Markúsar Þórs Andréssonar, voru runnin út og í stað þeirra komu þau Magnús Ragnarsson og Áslaug María Friðriksdóttir. Kolbrún stýrði því sínum síðasta fundi sem formaður stjórnar, en Magnús Ragnarsson var kjörinn til að taka við af henni við stjórnarformennskuna og mun stýra sínum fyrsta fundi nú í desember. Aðrir í stjórn Listaháskólans, skipaðir af Baklandi hans eða forvera Baklandsins, Félagi um Listaháskóla Íslands, eru þau Jóhannes Þórðarson, Halla Helgadóttir og Rúnar Óskarsson, en Halla var kjörinn varaformaður stjórnarinnar.

Listaháskólinn kann þeim Kolbrúnu og Markúsi Þór miklar þakkir fyrir heilindi þeirra í garð skólans og ötult starf í hans þágu þau ár sem þau hafa starfað í stjórninni.

Fríða Björk Ingvarsdóttir.