Nemendurnir heimsóttu Textílsetrið á Blönduósi þar sem vel var tekið á móti þeim af Jóhönnu E. Pálmadóttur verkefnisstjóra Þekkingasetursins á textílsviði og auk þess að fræðast um spuna, prjónaskap, hekl og útsaum fengu þau þar kennslu í vefnaði hjá Ragnheiði Björk Þórsdóttur. Þau heimsóttu einnig ullarþvottastöð ÍSTEX og Elín S. Sigurðardóttir forstöðukona Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi tók á móti nemendum og kynnti þau fyrir íslenskri handverksarfleifð. Að lokum var farið í Gestastofu sútarans á Sauðárkróki þar sem þau voru kynnt fyrir sútunar- og litunarmöguleikum á skinnum og roði.

Þetta var í fyrsta sinn sem staðið var að þessu tilraunaverkefni en allir aðilar voru samhuga í því að gera þessa ferð mögulega fyrir nemendur Listaháskólans. Mikil ánægja var með dvölina og ílengdust sumir nemendur við frekari tilraunir, meðal annars við að blanda óhefðbundnum efnum við íslensku ullina. Gist var í gamla Kvennaskólanum en þar er nú starfrækt Þekkingarsetrið á Blönduósi, Textílsetur Íslands og Minjastofa vina Kvennaskólans.

Auk fyrrnefndra aðila þakkar Listaháskólinn Arnari Þór Sævarssyni bæjarstjóra Blönduóss og Katharínu Schneider hjá Þekkingarsetrinu fyrir samstarfið.