The IAA Design Department recently signed an agreement with MATÍS about future collaboration.

 

Í síðustu viku skrifuðu fulltrúar hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskólans og Matís undir viljayfirlýsingu sem útlistar áhuga til aukins samstarfs, með aukna verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á afurðum íslensks lífhagkerfis að markmiði.

Matís og hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ telja að rannsóknir og samstarf geti lagt grunn að breyttum hugsunarhætti varðandi nýsköpun og tækniumbyltingar í matvælaframleiðslu, hönnun og vöruþróun á Íslandi, aukið framleiðslu heilnæmra og næringarríkra matvæla sem höfða til neytenda á sama tíma og framleiðsla þeirra stuðlar að sjálfbærri þróun í lífhagkerfinu og stuðli að því að nýir kraftar leysist úr læðingi þegar kemur að framþróun íslensks matvælaiðnaðar.

Á tímum áskorana á sviði fæðuöryggis, næringaröryggis og lýðheilsu og mikilla breytinga í lýðfræði um gjörvallan heim er mikilvægt að horfa með nýjum hætti á nýtingu erfðaauðlinda Íslendinga og menningararfs tengdum lífhagkerfinu, möguleika til landbúnaðar í og nærri þéttbýli og nýtingu alþjóðlegrar tækni- og markaðsþekkingar til aukinnar verðmætasköpunar og bættar lýðheilsu. Notendamiðuð hönnun, vara og þjónusta, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, eru grundvallaratriði í þessu samhengi.

Matís og hönnunar- og arkitektúrdeild munu leita leiða til að vinna saman að verkefnum sem báðir aðilar sjá tækifæri í. Matís mun gefa nemendum og kennurum hönnunar- og arkitektúrdeildar tækifæri til að nýta sér, eftir því sem kostur er, tæki og aðra innviði og deildin mun beina nemendum sínum í starfsnám til Matís eftir atvikum.