Miðvikudaginn 16. mars klukkan 12:15 heldur Rúna Thors erindið Ferlið ræður ferðinni í fyrirlestraröð hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, SNEIÐMYND í Þverholti 11, fyrirlestrasal A.

Rúna Thors er vöruhönnuður sem nálgast viðfangsefni sín í gegnum leik og tilraunir. Í vinnu sinni leggur hún áherslu á opið og skapandi ferli og treystir aðferðarfræðinni til að leiða sig á óvæntar og spennandi slóðir. Rúna útskrifaðist úr vöruhönnun frá Design Academy Eindhoven í Hollandi árið 2009 og lauk MA prófi í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands árið 2015. Hún hefur unnið að fjölbreyttum hönnunarverkefnum, sjálfstætt og sem hluti af hönnunarteymunum Attikatta, Whitehorse og TOS. Rúna hefur kennt við námsbraut í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands frá árinu 2011. Hún gegnir auk þess starfi verkefnastjóra hönnunar- og arkitektúrdeildar.

Í fyrirlestrinum mun Rúna fjalla um fjölbreytt verkefni sem hún hefur unnið að á undanförnum árum, vinnuaðferðir sínar og tengsl þeirra við kennslu hennar við deildina. 

Facebook viðburður

 

Sneiðmynd - skapandi umbreyting

Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar hönnunar- og arkitektúrdeildar eigin hönnunarverkefni og rannsóknir og ræða tengsl þeirra við kennslu í námskeiðum við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl hönnunar, sköpunar og rannsókna, kennslu og þekkingaröflunar rædd út frá ýmsum sjónarhornum. 

Við hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á meistaranám í hönnun. Áhersla er lögð á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Nemendur eru stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt og endurspeglast þessi áhersla einnig i í kennslu og rannsóknum kennara.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er fagfólk, nemendur og áhugafólk um hönnun hvatt til að mæta. 

Hádegisfyrirlestrarnir eru í sal A í húsnæði hönnunar- og arkitektúrdeildar að Þverholti 11. Allir velkomnir.