Katrín María Káradóttir er fagstjóri og aðjúnkt við fatahönnunarbraut Listaháskóla Íslands og yfirhönnuður ELLU.

Í erindi sínu fjallar hún um nám sitt og fjölbreytt störf til dagsins í dag við hönnun á tískufatnaði, klæðskurð, hugmyndavinnu og listræna ráðgjöf.  Hún mun setja hönnunarstörf sín í samhengi við kennslu og störf á akademískum vettvangi.

Tíska og tíðarandi eru samofin og hafa alltaf verið. Óhjákvæmilegt er að velta upp spurningum er varða þróun fagsins næstu áratugina í samhengi við aðkallandi áskoranir samtímans í breytilegum heimi. Þurfum við að sætta okkur við minni gæði og listrænt frelsi í hönnun og lífstíl til að lifa í sátt við náttúruna - eða getur þessu verið öfugt farið?

Sneiðmynd - skapandi umbreyting

Í fyrirlestrum vetrarins kynna kennarar deildarinnar eigin viðfangsefni og ræða tengsl þeirra við kennslu og uppbyggingu náms við deildina. Auk þess að fjalla um eigin verkefni verða tengsl sköpunar við kennslu, hönnun, rannsóknir og þekkingaröflun rædd út frá ýmsum sjónarhornum.

Við Hönnunar- og arkitektúrdeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum til bakkalárgráðu, í arkitektúr, fatahönnun, grafískri hönnun og vöruhönnun, auk þess sem boðið er upp á nám í hönnun á meistarastigi.

Dagskrá vorannar:

26. febrúar kl. 12.10
Massimo Santanicchia, lektor í arkitektúr

The Discovery of Architecture

12. mars kl. 12.10
Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og deildarforseti
Lesið í rými

26. mars kl. 12.10
Bryndís Björgvinsdóttir, aðjúnkt í fræðigreinum
Hafsjór af heimildum: Af hverju er gaman að vera til?

9. apríl kl. 12.10
Lóa Auðunsdóttir, aðjúnkt í grafískri hönnun
Hin nýja fagurfræði

30. apríl kl. 12.10
Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun
Grafískur heimur

Hádegisfyrirlestrarnir eru í Sal A í húsnæði Hönnunar- og arkitektúrdeildar að Þverholti 11. Allir eru velkomnir.