Kolbeinn Bjarnason, tónskáld og flautuleikari verður með fyrirlestur í tónsmíðadeild LHÍ í Sölvhóli, föstudaginn 27. feb. frá kl. 13-15. Fyrirlesturinn er öllum opinn.

Eftir nám í bókmenntum og heimspeki við Háskóla Íslands útskrifaðist Kolbeinn Bjarnason sem flautuleikari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1979.  Framhaldsnám stundaði hann einkum hjá Manuelu Wiesler en einnig í Sviss, Bandaríkjunum og Hollandi. 

Kolbeinn er einn stofnenda Caput hópsins og annar tveggja listrænna stjórnanda hópsins.  Hann hefur unnið með fjölmörgum íslenskum og erlendum tónskáldum, haldið tónleika víða um lönd, haldið námskeið og flutt fyrirlestra um nútíma-flautuleik meðal annars í Juilliard í New York, Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn og Takefu hátíðinni í Japan. Þá hefur hann setið í dómnefnum í flautukeppnum. 

Meðal hljómdiska Kolbeins er heildarsafn flaututónlistar Brians Ferneyhough og flaututónlist Toshio Hosokawa. 

Kolbeinn lauk MA-námi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands haustið 2013.   

Hann vinnur nú jöfnum höndum við flautuleik, kennslu og tónsmíðar.

Helstu hljómdiskar  Kolbeins eru:  

Implosions: Tónlist efir  Lavista, Huber, Sollberger, Ferneyhough, Hallgrímsson and Haukson.  Audiar/Japis-1995

Brian Ferneyhough: The complete music for solo-flute. Bridge 2002

Leifur Þórarinsson: Tónlist fyrir flautu og sembal með Guðrúnu Óskarsdóttur, Smekkleysa 1999

Toshio Hosokawa: Tónlist fyrir flautu NAXOS desember 2010  

Í MA-náminu við Listaháskólann rannsakaði Kolbeinn tónlist Leifs Þórarinssonar (1934-1998) og útskriftarverk hans "Caputsónata" byggist á þeirri rannsókn.

Caputsónatan er samin til minningar um Manuelu Wiesler og er "samin túlkun" á Sónötu per Manuela eftir Leif.