Einkasýning Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur, Faðmur, opnar fimmtudaginn 24. nóvember kl.17:00 – 20:00 í Skúrnum. Skúrinn er að Laugarnesvegi 91, austan við aðalbyggingu. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Í öllum býr þögul þekking; minni líkamans. Þetta minni er óskilgreint og óáþreifanlegt og oft óaðgengilegt. Það er óaðgengilegt vegna þess að við höfum kennt sjálfum okkur að hætta að hlusta á líkamann og viðbrögð hans og reiðum okkur þess í stað á hugsanirnar. En þegar orðin bregðast og rökin standast ekki situr tilfinningin eftir.

Ég nýti mér mína þöglu þekkingu til þess að eiga samtal við leirinn; til þess að tjá það sem ég get ekki skrifað eða sagt. Leirinn tekur við því og svarar mér, ég tek hann í minn faðm og við semjum um það sem kann að verða.

Snerting og viðbragð, líkami byggist upp í höndum mér. Það sem bregst getur verið alveg jafn mikilvægt og það sem stenst.

Á tímabilinu 13. október - 24. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 18 sýningar.

Facebookviðburður sýningarinnar.

Á hverjum fimmtudegi frá 13. október - 24. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum Laugarnesi; í Naflanum sem er inn í miðju skólans, í Kubbnum á annari hæð og síðast en ekki síst í Skúrnum sem sendur fyrir utan húsið austanmegin. Opnanir eru frá kl. 17 - 20 á fimmtudögum. Einkasýningar nemenda er liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora í umsjón Heklu Daggar Jónsdóttur. Kennarar ásamt Heklu eru Unnar Örn og Sindri Leifsson.

Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist