Elísabet Birta Sveinsdóttir
BA Myndlist 2017
elisabetbirtasveinsdottir.com

Ég fjarlægi öll merki og vísanir í klámvædda menningu af líkamanum. Í verkinu er hlutgerfing líkamans skoðuð út frá minni hugmynd um vísinda- legt sjónarhorn, kalt og „hlutlaust,” eins og ég ímynda mér hvernig líkaminn, dýr og plöntur eru stúderuð í náttúruvísindum. Hreyfing kvenlíkamans á fjórum fótum, skríðandi er viðfangsefnið.

Ég leik mér að hlutverki vísindamannsins og tilraunadýrsins ólíkt öðrum verkum eins og í Cold Intimacy, 2016 þar tek ég fyrir hlutverk leikstjórans og flyjandans.

Mér finnst áhugavert að skoða hvernig hugmyndum er varpað á líkamann og hvernig merkingin breytist eftir samhengi og afstöðu áhorfandans.

Hlutgerving kvenlíkamans í listasögunni og klámvæddri menningu sem og hlutgerving dýra í skemmti- og kjötiðnaði getur tekið á sig neikvæða mynd. Lifandi hlutir eru hlutgerðir í vísindalegum rannsóknum en ég velti fyrir mér hinu óhlutdræga vísindalega sjónarhorni í samanburði við sjónarhorn listheimsins og fjölmiðla. Stjórnar hlutgerving afstöðu okkar til hlutar, hvernig breytist afstaða okkar til hans í mismunandi samhengi?

Er hlutgerving hugmynd sem fæddist í vísindum eða er hlutgerving eitthvað sem er manninum eðlislægt sem hefur öðlast nýja merkingu í nútímanum? Hvenær er kvenlíkaminn hlutgerður og hvenær er karllíkaminn hlutgerður?

Hvenær eru dýr hlutgerð, var það áður en maðurinn hætti að veiða sér til matar sjálfur og fór að kaupa kjöt? Með því að leitast við að beina óháðu vísindalegu sjónarhorni í verkinu gefst áhorfendanum tækifæri til að taka afstöðu til hlutarins sem hann horfir á í hlutverki rannsakenda.

Ég stúdera sjálfa mig, set fram hugmynd/tilgátu og býð áhorfendanum að taka afstöðu, sem hefur síðan áhrif á rannsóknina sjálfa.