Sounds of the Sea, Crickets and Translucent Yellow  er ljóðræn íhugun um hið listræna ferli. Vídeóið stillir saman tveimur nákvæmlega eins styttum: önnur er staðsett í garði nálægt Nagoya, hin við sjóinn í litlum bæ í Hollandi. Verkið beinist ekki að þeim sagnfræðilegu vísunum sem styttur fela oft í sér, heldur kaus ég frekar að skoða hvernig stytturnar virka sem fulltrúar þess umhverfis sem þeim er stillt upp í. Útgangspunktur minn í þessu verki var sá möguleiki að geta verið á tveimur stöðum í einu í gegnum skilningarvitin. Kvikmyndagerðarmaðurinn Chris Marker skeytti oft saman myndskeiðum frá ólíkum stöðum og ferðalögum. Mynd hans, Sans Soleil, hefst hinsvegar á því að gefa til kynna að stöku sinnum geti verið ómögulegt að skeyta saman ákveðnu myndefni. Með Sounds of the Sea, Crickets and Transclucent Yellow vildi ég kanna hvort mér tækist að skeyta saman hljómum þessara tveggja styttna. Stytturnar þjóna hér tilgangi sem manngervingar sem endurspegla nærumhverfið – garðinn og sjávarsíðuna. Myndavélarhreyfingarnar og hljómarnir breyta því hvernig áhorfandinn sér kyrrstæðar stytturnar. 

Á meðan á gerð verksins stóð spurði ég sjálfa mig: hvernig endurröðum við ákveðnum vísunum, hughrifum og hlutum til að skapa okkar eigin raunveruleika? Hversu mikið af þeim útskýringum sem snúast um okkar eigin verk eru byggðar á skáldskap? Þær frásagnir sem skilgreina okkar eru oft litaðar hugmyndaríkum löngunum, það sama á við sögur sem eiga að lýsa vinnu okkar, því eins og allar sögur eru þær leið fyrir okkur til að öðlast skilning á upplifun okkar og reynslu. Bókmenntafræðingurinn Mieke Bal heldur því fram að þörf okkar fyrir að safna ákveðnum bókum, vísunum og myndefni sé eðlislægur mannlegur eiginleiki sem rekja megi til þeirrar sammannlegu þarfar að segja frá. 

 

Þegar ég fór að velta fyrir mér listrænu starfi mínu rakst ég á eitthvað nafnlaust sem hefur verið rauður þráður í listsköpun minni alveg frá því að ég man eftir mér. Það var erfitt að henda reiður á hvað þetta var og í fyrstu skaut það mér skelk í bringu, enda náði ég ekki að skilgreina það, en svo áttaði ég mig á því að þetta nafnlausa fyrirbæri er í rauninni hugmyndaflug mitt.

Ég hélt áfram að skapa ögn breytta veruleika úr þeim aðstæðum sem ég lenti í. Á meðan á því stóð fannst mér ég tengjast hugsunarhætti listamannsins Janet Cardiff sem sagði: „Ég er hrifin af þeirri hugmynd að það sé ekki til neinn sannleikur, ekkert eitt meistaraverk út frá einu viðfangsefni. Það getur verið eitt ástand og tíu raunveruleikar.“ Ég tel að þessir mismunandi veruleikar spretti upp úr samböndum sem við stofnum til við umhverfi okkar, þeir eiga rætur að rekja til þeirrar mannlegu þarfar að staðsetja hluti og okkur sjálf.