Laugardaginn 10. júní fór fram útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands í Silfurbergi,  Hörpu. Á athöfninni komu fram Duo Harpverk og Reykjavíkurdætur. Hátíðarræðumaður var Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður.

Fulltrúar nemenda er fluttu ræður voru að þessu sinni:

Guðbjörg Hilmarsdóttir, listkennslu.
Veigar Ölnir Gunnarsson og Ágústa Gunnarsdóttir, myndlist.
Ósk Óskarsdóttir, grafískri hönnun.
Friðrik Margrétar- Guðmundsson, tónsmíðum.

Hér fyrir neðan má lesa ávarp Fríðu  Bjarkar Ingvarsdóttur.

 

Kæru útskriftarnemar, aðstandendur og aðrir góðir gestir:
Það er einstaklega ánægjulegt að sjá ykkur öll hér við þetta hátíðlega tilefni; vorútskrift og skólaslit Listaháskóla Íslands – verið þið öll hjartanlega velkomin!

I
Ég stilli mig um að tala um myglu og húsnæðisvanda hér í dag, enda þótt ég sé að verða sérfróð um þau efni, líkt og Júlí Heiðar benti á hér áðan – læt duga að upplýsa um að þau mál hafi þokast í rétt átt eftir erfiða baráttu í vetur.

Samtalið við ríkisvaldið um framtíðina gengur þó ótrúlega hægt – mun hægar en aðstæður okkar og þarfir gefa tilefni til.

Við sem stöndum í þessu þrefi fyrir hönd Listaháskólans höldum því eftir sem áður uppi þeirri kröfu að listum í landinu sé gert jafn hátt undir höfði og öðrum grunnþáttum mannlegs lífs og athafna í samfélaginu. Grundvöllur þeirra kröfu er sú sannfæring að listirnar séu ekki fjármagnaðar á kostnað annarra samfélagsþarfa – ekki frekar en önnur háskólamenntun í landinu – heldur þvert á móti til að styrkja þær.

Fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára er þó því miður ekki til vitnis um skilning á þessari kröfu um viðhald og uppbyggingu háskólastarfs.

 

II
Við tímamót sem þau er við fögnum í dag vakna gjarnan spursmál sem brýnt er að takast á við. Þau lúta að grunnforsendum samfélagsins, hlutverki einstaklingsins í umhverfi sínu og hlutdeild hans í þeim gildum sem það stendur fyrir. Lífsgæði okkar allra eru samofin þessum forsendum sem og þróun okkar og þroski til framtíðar.

Vitaskuld lúta mörg þessi spursmál ekki síður að hugsjónum okkar, sköpunarþörf og tjáningarmætti. Að áhuga okkar á umhverfinu, rannsóknum á eðli mannlífsins, mótun þess og allri þeirri pólitík er lýtur að hugaraflinu, listhneigðinni, nýjum sjónarhornum á hversdagsleikann eða hið upphafna. Þau hverfast um alla þá hugljómun og drifkraft sem þarf að bera í brjósti til að leggja upp í vegferð listsköpunarinnar, ekki síður en einurð við að tileinka sér þau tæki og tól sem þarf til að viðhalda slíkum innblæstri.

Ég veit að þið sem gangið héðan út í dag með prófskírteinin ykkar sem táknmynd þess úthalds og aga sem námið krefst, þekkið þessa tilfinningu. Hún er enda kjarninn í því langa ferli sem þið eigið nú að baki.

III
En það vakna líka aðrar spurningar – um óskáldlegri hliðar á veruleikanum. Eins og þá hvort listnám borgi sig. Eða hvort hægt verði að framfleyta sér sem listamaður. Útskriftarnemar hljóta líka margir að velta því fyrir sér hvort þeir njóti sömu virðingar og allir þeir hinir sem sem hafa lokið prófum á öðrum sviðum; viðskiptafræðingar, lögfræðingar, ljósmæður eða rafvirkjar – svo dæmi séu nefnd.

Þetta eru áleitnar spurningar. Og ástæður sem liggja að baki þeirra bergmála einfaldlega efasemdir þess umhverfis sem við búum við – efasemdir sem síðan verða mótandi þáttur í hugrekki til stefnumótunar, vilja til fjárveitinga og nauðsynlegra fjárfestinga.

IV
Flestir mæra listirnar á hátíðlegum stundum. Við slík tækifæri skilja allir í hjarta sínu auð þess anda sem listirnar hverfast um. En ef horft er til hversdagsleikans, ekki síst þess er lýtur að tilurð listanna frá degi til dags – þá gegnir öðru máli.

Það er líkt og vandi listanna og menningarinnar í þessu landi felist í því að horfa til annarra kerfa en þeirra sem listir og menning byggja á þegar kemur að rekstri og fjármögnun. Þau kerfi sem notuð eru sem viðmið spretta úr umhverfi er lýtur öðrum lögmálum. Þau tengjast skemmri tíma sjónarmiðum rekstrareininga er vinna einvörðungu útfrá framboði og eftirspurn – hugmyndum um arðsemi á ársgrundvelli, frekar en arðsemi í menningararfleifð eða listsköpun eins og hún kjarnast sem hryggjarstykki í þjóðararfleifð aldanna.

V
Samt sem áður hefur starf okkar hér við Listaháskólann orðið til þess að stöðugt fleiri vita að listnám borgar sig. Listnám skilar skilningi á þeim flóknu þáttum tilvistarinnar sem eru forsenda þeirrar gagnrýnu hugsunar er leiðir til farsældar og lífshamingju. Ekki bara einstaklinga heldur samfélagsins alls. Listnám skilar hæfni til að takast á við ögranir og áskoranir síbreytilegs samtíma við upphaf þúsaldar þekkingarsköpunar. Og ef horft er til heildarinnar skilur

listnám eftir sig þau verðmæti sem best standast tímans tönn, líkt og ég þreytist ekki á að benda á – og eru reyndar iðulega svo verðmæt að þau verða ekki metin til fjár.

Í Listaháskólanum vitum við líka að það er hægt að framfleyta sér sem listamaður. Tölfræði skapandi greina hér sem erlendis sýnir að listamenn eru sveigjanlegt vinnuafl sem finnur sér farveg með skapandi hætti. Ekki bara í listheiminum, heldur í nýsköpun, rannsóknum og lausnarmiðaðri þróun – svo sem í þágu sjálfbærni, svo dæmi sé tekið af brennandi málefni.

Við skulum ekki gleyma að horft er til skapandi greina sem óþrjótandi auðlindar á heimsvísu. Öfugt við þær takmörkuðu auðlindir sem hefð er fyrir að reiða sig á og byggja undir í íslensku samfélagi. Það eru skapandi greinar – nýsköpunin – sem við þurfum að leggja rækt við til að viðhalda þeim lífsgæðum sem við njótum í hinum velmegandi heimi. Þær varða einnig veg annarra að slíkri velmegun án þess að enn frekar sé gengið á takmarkaðar auðlindir jarðar.

 

VI
Það er ekki fyrr en kemur að virðingunni fyrir listunum sem málin flækjast svo að þau verða í senn að pólitísku og tilvistarlegu umhugsunarefni.

Staðreyndin er nefnilega sú að listamenn njóta sannarlega virðingar í sögulegu samhengi. Og alla jafna einnig í samtímanum ef þeir afla sér frægðar. Það fylgir hreinlega mannlegu eðli að ylja sér í ljóma þeirra er kastljósin beinast að.

Þversögnin er hins vegar sú að ótrúlega fáir standa vörð um þann veg sem leiðir að slíkri velgengni; um menntunina, starfsumhverfið og þær stofnanir sem eru forsenda þess að listirnar þrífist.

Hver skyldi trúa því að myndlistarmenn skuli enn standa í mannréttindabaráttu við að fá vinnuframlag sitt metið til launa hjá opinberum söfnum? Sú tímaskekkja sem felst í því að ein listgrein skuli sitja eftir með þessum hætti reynir óneitanlega á samtakamátt listamanna sem heildar.

Katrín Oddsdóttir lögmaður, sem mikið hefur látið mannréttindi til sín taka, hélt nýverið fram í merkilegri grein um þennan ójöfnuð að slíkt virðingarleysi í viðhorfi til listanna eigi ekki einungis við um listamennina sjálfa, heldur einnig um listneyslu yfirleitt. Hún bendir á að í 27. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sé skýrt kveðið á um rétt allra manna til að taka frjálsan þátt í menningarlífi þjóðfélagsins og njóta lista. Þau mannréttindi eru meira að segja bundin í íslensk lög.

 

VII
Á síðastliðnum tíu árum höfum við, sem samfélag, gengið í gegnum ótrúlega velmegun, en einnig hrun og kreppu í kjölfarið. Síðustu misseri hafa síðan einkennst af uppgangi og þenslu á nýjan leik. Í öllum þessum hrunadansi hefur staða menningarinnar, öfugt við flest annað, þó verið nokkuð stöðug – þ.e.a.s. hún hefur einfaldlega verið afrækt.

Á hagvaxtarskeiðum eru önnur mál en listir og menning í brennidepli. Á krepputímum er menning hins vegar ofarlega í hugum flestra, enda mikilvægur fasti í sögu og vitund þegar reynir á sært þjóðarstolt eða hugrekki til að sjá stóru myndina. Hvorug skeiðin hafa þó leitt til aukinna fjárfestinga í listum eða menningu á Íslandi. Þvert á móti hafa stofnanir á borð við Listaháskólann þurft að sæta síendurteknum niðurskurði og vanmati á þeim slagkrafti sem í þeim býr.

Hvað fjármögnun varðar eru bæði háskólamenntun og listir undirmálsflokkur í okkar samfélagi – þrátt fyrir óumdeilt vægi í stóra samhenginu.

Því skulið þið, kæru útskriftarnemendur, þegar þið haldið héðan út í dag, hafa grundvallarviðmið mannréttindasáttmálans og mikilvægi þeirra í huga. Þið hafið aflsmuni til að tryggja þennan rétt almennings. Þið eruð kynslóðin sem þarf að stemma stigu við skammtímasjónarmiðum og vanefndum þeirra sem stýra stefnumótun og fjárveitingum til lista, háskólamenntunar og menningar. Það er ykkar að knýja á um rétt okkar allra til að njóta frumsköpunar og ögrandi hugsunar listanna; að sjá til þess að þær endurspegli raunveruleikann og umheiminn í framtíðinni.

Kæru útskriftarnemendur; ég hlakka til að fylgjast með ykkur á vegi listanna, verða vitni að nýjum snertifleti við samtímann – og þakka ykkur öllum áheyrnina að sinni.